Það má með sanni segja að lífið gangi ekki sinn vanagang í þýsku borginni Frankfurt í dag. Knattspyrnuliðið Eintracht Frankfurt vann í gær Evrópudeildina eftir spennuþrunginn leik gegn skoska liðinu Rangers en úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni. Hundruðir þúsunda einstaklinga eru samankomnir í miðborg Frankfurt til þess að fagna afreki knattspyrnuliðsins og þá hafa borgaryfirvöld séð til þess að fresta þurfi níu brúðkaupum sem halda átti í miðborginni.

Frá þessu greindi fréttamaður Sky Sports í Þýskalandi í dag en þetta er í fyrsta skipti sem Eintracht Frankfurt vinnur Evrópudeildina en áður hafði liðið unnið sambærilegan titil Evrópubikarinn tímabilið 1979-1980.

,,Þetta er bara byrjunin," sagði fréttamaður Sky Sports í Þýskalandi er myndavélinni var beint á mannhafið fyrir aftan hann í miðborg Frankfurt. ,,Margir eru ennþá að vinna og munu síðan koma beint hingað eftir vinnu. Það er ómögulegt að láta gifta sig hér í dag og því hafa borgaryfirvöld tekið málin í sínar eigin hendur og frestað níu brúðkaupum."