Nú þegar fyrsta þriðjungi Olís-deildar karla í handbolta er lokið hafa nýliðar deildarinnar, HK og Víkingur, leikið samtals 15 leiki án þess að hafa náð í stig.

Raunar hefur Víkingur spilað 18 leiki í röð í efstu deild án þess að bera sigur úr býtum og síðasti sigurleikur liðsins á þeim vettvangi kom í lok nóvember árið 2017.

Síðan liðunum var fjölgað úr 10 í 12 í efstu deild fyrir keppnistímabilið 2017 til 2018, hefur bilið milli liðanna sem falla aukist ár frá ári.

Það tímabil náði Fjölnir að hala inn 10 stig og var tveimur stigum frá fallsvæði deildarinnar. Akureyri var þremur stigum frá öruggu sæti vorið 2019 og HK fimm stigum árið eftir.

Á síðustu leiktíð var Þór Akureyri fimm stig frá því að bjarga sér frá falli og ÍR fór í gegnum deildarkeppnina án þess að næla sér í stig.

Línur geta skýrst um helgina

Næstkomandi sunnudag getur Grótta farið langt með að fella Víking fari Seltirningar með sigur af hólmi í leik liðanna í Fossvoginum.

HK mætir Stjörnunni á morgun og bíði Kópavogsliðið ósigur í þeim leik er fallbaráttan nánast ráðin um miðjan nóvember.

„Það er umhugsunarefni hversu mikill getumunur er á milli efstu og næstefstu deildar og að liðin sem fara upp nái ekki að styrkja sig nógu mikið á milli ára til þess að halda sér uppi.

Benda má hins vegar á að Grótta var klók á leikmannamarkaðnum fyrir síðasta tímabil, þar sem liðið nær í unga og efnilega stráka, sem og leikmenn sem höfðu ekki náð að festa sig í sessi hjá stóru liðunum og héldu sér uppi,“ segir þjálfarinn margreyndi Guðlaugur Arnarsson, um stöðu mála hjá liðunum sem farið hafa á milli efstu deildanna síðustu árin.

Úr leik ÍBV og Víkings í upphafi þessa tímabils
fréttablaðið/valli

Huga þarf að landsbyggðinni

„Að mínu mati á ekki að fækka liðum aftur niður í 10 í efstu deild. Það þarf að gefa 12 liða efstu deild meiri séns og fara frekar í það að finna leiðir til þess að styrkja betur þau lið sem komast upp í efstu deild.

Það ætti að mínu viti að hverfa frá því að lið geti sett 16 leikmenn á leikskýrslu og fækkað svo aftur niður í 14 leikmenn. Það myndi auka líkurnar á því að leikmenn númer 12 til 16 í bestu liðum landsins fari til minni liðanna.

Ungmennaliðin hafa sannað mikilvægi sitt í deildarkeppnum og við ættum ekki að koma í veg fyrir veru þeirra í deildunum til þess að ýta ungum leikmönnum til annarra liða. Fremur ættum við að huga því að leita leiða til þess að styrkja handboltastarfið á landsbyggðinni.

Við sjáum núna að Hörður er að gera frábæra hluti fyrir vestan en það er áhyggjuefni að það sé ekkert lið frá Reykjanesi eða fyrir austan með lið í deildarkeppni,“ segir Guðlaugur. Hörður situr þessa stundina á toppi Grill 66-deildarinnar með fullt hús stiga.

Hörður sýnt að þetta er hægt

Harðarmenn eru með góða blöndu af heimamönnum og sterkum erlendum leikmönnum sem leika undir styrkri stjórn Spánverjans Carlos Martin Santos.

„Auðvitað þarf fjármagn, áhuga og metnað til þess að setja á laggirnar samkeppnishæft meistaraflokkslið, en það er ekki jafn mikið og í fótboltanum til að mynda.

Það er hins vegar ein af lausnunum til þess að gera næstefstu deild sterkari að fjölga þeim meistaraflokksliðum sem eru að gera hlutina jafn vel og Hörður er að gera þessa stundina,“ segir hann.

Framtíðin björt hjá nýliðunum

„Það þarf hins vegar að taka það fram að mér finnst vera flott framtíðarsýn hjá HK og margir spennandi leikmenn í þeirra herbúðum. Þá er einnig verið að keyra á ungum uppöldum leikmönnum í Víkinni.

Sú leið er skynsamlegri en að tjalda til einnar nætur með því að styrkja liðið með misgóðum erlendum leikmönnum.

Þeir leikmenn stoppa oftast stutt og eru fæstir ekki nógu öflugir til þess að gera það að verkum að liðin festi sig í sessi í deild þeirra bestu,“ segir Húsvíkingurinn.