Brott­hvarf Eiðs Smára Guð­john­sen úr stól að­stoðar­lands­liðs­þjálfara A-lands­liðs karla er sagt tengjast gleð­skap sem Knatt­spyrnu­sam­band Ís­lands bauð til eftir leik Ís­lands við Norður-Makedóníu fyrr í mánuðinum.

Þetta herma heimildir DV.

KSÍ sendi frá sér yfir­lýsingu seint í gær­kvöldi þar sem fram kom að Eiður væri hættur sem að­stoðar­lands­liðs­þjálfari. Engar á­stæður voru til­greindar aðrar en þær að endur­skoðunar­á­kvæði í ráðningar­samningi hans við sam­bandið hefði verið virkjað.

Í frétt DV kemur fram að eftir tapið gegn Norður-Makedóníu hafi KSÍ boðið öllum í glas og birtust til að mynda myndir á sam­fé­lags­miðlum sam­bandsins þar sem á­fengi sást greini­lega. Tekið er fram í frétt DV að sam­kvæmt heimildum hafi Eiður Smári „ekki farið yfir nein mörk þetta kvöld“ í Norður-Makedóníu.

Þá kemur fram að einn leik­maður lands­liðsins sé undir smá­sjá en sá er sagður hafa farið yfir þau mörk sem sett voru um­rætt kvöld. Herma heimildir miðilsins að leik­maðurinn hafi enn verið í annar­legu á­standi þegar liðið ferðaðist heim snemma morguns þann 15. nóvember síðast­liðinn.

Frétt DV í heild sinni.