Slakur sóknarleikur í fyrri hálfleik gerði útslagið í þrettán marka tapi íslenska kvennalandsliðsins í handbolta gegn Svíþjóð ytra í dag. Ísland lenti strax sex mörkum undir á upphafsmínútum leiksins.

Þetta var fyrsti leikur riðilsins en Ísland mætir Serbíu um helgina þegar Svíþjóð mætir Tyrklandi.

Ísland lenti strax 1-7 undir á fyrstu tíu mínútum leiksins og kom boltanum ekki í net andstæðinga sinna á fjórtán mínútna kafla í fyrri hálfleik.

Fyrir vikið leiddi Svíþjóð með níu mörkum í hálfleik og náði þrettán marka forskoti um miðbik seinni hálfleiks.

Stelpunum okkar tókst að halda í við Svíana á lokamínútum leiksins og lauk leiknum með 30-17 sigri Svíþjóðar.

Thea Imani Sturludóttir var atkvæðamest í liði Íslands með fjögur mörk en Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir voru með þrjú mörk hvor.