Tom Daley, sem keppir í dýfingum, hefur gagnrýnt Alþjóða sundsambandið harkalega fyrir að banna trans konum að taka þátt í keppnum í sundi.

Það var ákveðið á dögunum að trans konur mættu ekki taka þátt í sundkeppnum á hæsta stigi í kvennaflokki, ef þær fóru í gegnum hluta kynþroskaskeiðs sem karlkyns einstaklingar.

„Ég varð brjálaður. Eins og flest samkynhneigt fólk, ef einhverjum er sagt að hann geti ekki keppt eða gert eitthvað sem hann elskar vegna þess hver hann er, það er ekki í lagi. Ég hef mjög sterkar skoðanir á þessu. Það ætti að gefa trans fólki tækifæri á að deila þeirra hlið,“ sagði Daley, sem sjálfur er samkynhneigður.

„Það er mjög erfitt að átta sig á því hver þú ert þegar allir eru að fylgjast með þér. Það var mjög kvíðavaldandi að komast að því hver ég var, ef ég á að vera hreinskilinn. En þegar þú kemst að því hvert þú ert og líður vel með það, það er þá sem þú kemst áfram. Þá getur þú í raun og veru verið frjáls.“

Alþjóða sundsambandið hefur stofnað sér flokk þar sem keppt er í flokki þeirra sem skilgreina sig af öðru kyni en því sem þau fæddust sem. Þetta hefur þó verið mikið gagnrýnt, það er ekki talið að það séu nógu margir keppendur sem falli undir þennan flokk.