Dómarinn í leiknum kom frá Brasilíu og var Messi verulega ósáttur við hans störf. Wilton Sampaio dæmdi vítaspyrnu á Argentínum sem ekki tókst að nýta.

Þá voru leikmenn Argentínu verulega ósáttir þegar Wilton Sampaio sleppti vítaspyrnu þegar stigið var á Lautaro Martinez í teignum.

„Erfiður leikur sem var mjög erfitt að spila. Mikill vindur, þeir lágu í vörn og gáfu okkur ekkert pláss. Dómarinn gerir þetta alltaf þegar hann dæmir hjá okkur. Það er eins og hann sé að leika sér að þessu . Gott og vel, þrjú góð stig og við erum nær markmiði okkar,“ skrifaði Messi í færslu á Facebook.

Argentína er með 25 stig í öðru sæti riðilsins en Brasilía er á toppnum með 31 stig. Argentína hefur gott forskot á liðið í þriðja sæti en fjögur efstu sætin fara beint inn á HM í Katar árið 2022.