„Þar sem það eru engin mót fyrirhuguð erlendis í þríþrautinni ákvað ég að skrá mig til leiks til þess að sjá hvar ég stæði hvað svona langt hlaup varðar. Það eru tvær tegundir af þríþrautum sem ég keppi í, það er sprettþraut þar sem hlaupið er fimm kílómetrar og svo lengri útgáfan þar sem hlaupnir eru 10 kílómetrar. Grunnurinn hjá mér er í sundi en ég vissi vel að ég gæti hlaupið á góðum tíma en það er auðvitað ólíku saman að jafna að hlaupa eftir hjólreiðahlutann í þríþraut eða með ferska fætur,“ segir Guðlaug Edda í samtali við Fréttablaðið.

„Það er mjög gaman að vita af því að ég get hlaupið á svona góðum tíma og það er líka gott að fá enn frekari staðfestingu á því að sú æfingaaðferð sem ég hef unnið eftir síðasta árið sé að skila sér. Ég skipti um þjálfara fyrir ári síðan og er með bandarískan þjálfara sem umbylti því í raun hvernig ég æfi. Nú æfi ég á fjölbreyttari hátt, undir mismiklu álagi og legg meiri áherslu á styrktaræfingar. Þær breytingar eru greinilega að skila sér,“ segir hún

„Þetta ár hefur verið mjög skrýtið en öll langtímamarkmið hjá mér breyttust þegar mótahaldi erlendis í þríþraut var aflýst og Ólympíuleikunum í Tókýó slegið á frest. Ég hef unnið með íþróttasálfræðingi sem hefur lagt áherslu á að setja mér smærri markmið og ég hef lært að meta í þessu erfiða ástandi hversu dýrmætt það er að geta stundað íþróttir. Það er svo kærkomið að ná jafngóðum árangri og raun bar vitni á Akureyri,“ segir þríþrautarkonan.

„Framundan er svo að taka þátt í mótum á Íslandsmeistararöðinni og ég er bara mjög spennt fyrir því. Það verður gaman að kynnast betur því fólki sem stundar þríþraut hér heima. Það er svo verið að setja upp dagskrá á mótahaldinu erlendis en þau mót sem eru í farvatninu munu ekki telja til stiga á heimsmótaröðinni eða til þess að komast á Ólympíuleikana. Það og óvissan með þróunina á kórónaveirunni minnkar hvatann til þess að keppa á þeim mótum. Ég býst hins vegar við því að taka þátt á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Eistlandi í ágúst,“ segir Guðlaug.

„Það spilar líka inn í að það fylgir auðvitað mótahaldi erlendis mikill kostnaður og þegar mótin færa manni ekki stig þá verður að vega og meta hvort rétt sé að fara út í þann kostnað. Ég hef náð að vera á núlli undanfarin ár með því að tæma sparisjóðinn minn, með aðstoð fjölskyldu, styrktaraðila sem koma að kaupum á búnaði og afrekssjóði ÍSÍ sem byrjaði að styrkja mig þegar sá möguleiki að komast á Ólympíuleikana í Tókýó varð raunhæfur.

Ég hef hins vegar rekið mig á það þegar ég hef sótt um styrki til fyrirtækja að það skiptir meira máli að hafa marga Instagram-fylgjendur en afrek mín á íþróttasviðinu. Ég skil þá afstöðu alveg þó ég myndi kjósa að afrek á íþróttasviðinu og staða mín sem fyrirmynd skipti meira máli. Við afreksíþróttamenn þurfum hins vegar bara að aðlagast þeim heimi og freista þess að ná betur til almennings í gegnum samfélagsmiðla. Við höfum reynt að gera það undanfarið í gegnum ÍSÍ og samfélagsmiðlaátakið Klefinn og vonandi skilar það sér,“ segir hún.