Flestir leikir á Heims­meistara­mótinu það sem af er hafa farið yfir 100 mínútur. Á­stæðan er breyttar á­herslur dómara en líka breytingar sem orðið hafa á leiknum síðustu ár. Þannig hefur VAR-tæknin orðið til þess að oft hægist á leiknum og tíminn þar sem boltinn er raun­veru­lega í leik hefur minnkað, fleiri skiptingar eru leyfðar en áður og taka þær tíma frá leiknum sjálfum. Þá eru það taktísk brögð þjálfara sem oft leggja upp með það að tefja leiki, leik­menn gera sér upp meiðsli og fleira í þeim dúr. Með breytingunum sem eru á mótinu í Katar er verið að svara því á­kalli að boltinn sé meira í leik en verið hefur.

„Þetta er for­senda þess að koma í veg fyrir leiktafir og bæta upp þann tíma sem tapast út af skiptingum, meiðslum og öðru slíku. Það er líka verið að horfa til þess að hugsan­lega yrðu leiktafir út af veður­að­stæðum, að það yrði hrein­lega of heitt. Það er verið að svara kalli leik­manna, þjálfara og yfir­manna knatt­spyrnu­mála,“ segir Kristinn um þennan aukna leik­tíma sem sést hefur.

Kristinn dæmdi fjölmarga leiki á sínum ferli, hér dæmir hann leik Vals og ÍBV
Fréttablaðið/Anton Brink

Taktískar tafir

Það er þekkt stærð í heimi fót­boltans að lið leggja oft upp með það að tefja leik, hægja á öllu og leik­menn byrja að gera sér upp meiðsli sí og æ. Þessa list­grein hefur At­letico Madrid á Spáni svo sannar­lega full­komnað. Diego Si­meone og læri­sveinar hans eru þeir bestu í að hægja á leiknum með ráðum og dáð.

„Síðustu ár hefur þetta verið taktískt hjá mörgum liðum að hægja á leik og drepa niður hraða leiksins. Vinna sér inn tíma til að reyna að halda í úr­slit. Það að þetta byrji nú á HM er stór liður í því að ýta þessu úr vör, þetta er stærsta sviðið til að sýna að þetta virki og þá í fram­haldi fari þetta inn hjá UEFA og öðrum sam­böndum sem glíma við þetta í Meistara­deild og fleiri keppnum,“ segir Kristinn um breytinguna.

Al­menn á­nægja virðist ríkja með þessar nýju á­herslur sem FIFA lagði fyrir dómara. Eru stór­mót oft upp­hafið að breytingum í fót­boltanum. „Miðað við þær for­sendur sem við höfum eftir þessar mínútur sem búið er að spila, sýnist mér al­menn á­nægja vera með þetta. Menn komast ekki upp með taktískar leiktafir, í undan­förnum leikjum er hama­gangur undir lok leikja og þá viljum við eiga tímann inni sem tapast hefur vegna skiptinga og fleiri at­riða.

Núna er búið að auka fjölda skiptinga og það er stórt at­riði í þessu og tíminn í VAR, það eru margir þættir sem spila inn í. Leik­tíminn hefur verið að styttast og það er verið að vinna í þeim málum að koma til móts við það. Leik­menn, þjálfarar og for­ráða­menn hafa ekki haft þolin­mæði í VAR, það getur tekið tíma en með þessu á það ekki að hafa á­hrif á mínúturnar sem boltinn er í leik,“ segir Kristinn.

Krefjandi fyrir dómara

Dómarar eru einn mikil­vægasti þáttur leiksins, þeir geta gert góðan leik enn betri en geta líka misst öll tök og haft veru­leg á­hrif á gæði leiksins. Kristinn segir það veru­lega krefjandi fyrir dómara að eiga við taktískar tafir sem lið hafa beitt.

„Fyrir dómara sem slíkt er það mjög krefjandi, að leik­stýra því öllu saman. Annað liðið er ekki á­nægt en hitt liðið reynir að brjóta það niður með leik­töfum og gera sér upp meiðsli. Með þessari tækni sem er í Katar eru fleiri augu. Það eru fleiri menn í VAR-settinu og á vellinum sem geta hjálpað dómaranum með at­vik sem hann sér ekki. Það eru fleiri löggur á vellinum, eins og stundum er sagt,“ segir Kristinn um málið.

Kristinn segir að dómarar hafi hingað til á HM vart stigið feil­spor og vonar að það haldi á­fram. „7, 9, 13. Þá hefur ekki komið upp neitt stórt at­vik sem hægt er að rekja til dómaranna. Það er af því að við höfum VAR og höfum það í sterkara mæli en áður hefur verið. Þetta eru góð hjálpar­dekk fyrir teymið,“ segir þessi reynslu­mikli dómari sem var að skera niður há­gæða nauta­steikur af sinni al­kunnu snilld þegar hann ræddi við blaða­mann.