Vignir Svavarsson línumaður Tvis Holstebro sem situr í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta karla hefur misst 16 kíló frá því fyrir rúmum mánuði síðan.

Fram kemur í umfjöllum danska fjölmiðilsins TV2 um málið að Vignir hafi í ljósi þess að hann hafi glímt við mikil meiðsli vegna líkamlegs forms síns á síðasta keppnistímabili ákveðið að taka sig taki í vetur. 

Hann hafi með breyttu matarræði náð að létta sig um 16 kíló á rúmum mánuði og honum líði mun betur bæði á líkama og sál. 

Tilkynnt var í október á síðasta ári að Vignir myndi yfirgefa herbúðir Tvis Holstebro eftir yfirstandandi leiktíð. Þar gaf þessi 38 ára gamli Hafnfirðingur það í skyn að hann væri opinn fyrir því að halda áfram að spila handbolta á öðrum vettvangi á næstu leiktíð.   

„Ástríðan fyrir handbolta er enn til staðar en það er spurning hversu mikið líkaminn þolir. Ég ætla að halda öllum möguleikum opnum,“ sagði Vignir í samtali við heimasíðu Tvis Holstebro þegar tilkynnt væri um væntanlega brottför hans.

Það er allavega ljóst að Vignir er í hörkuformi og ætlar að vera í nógu góðu líkamlegu formi til þess að heilla forráðamenn annnarra félaga sem vantar línumann næsta vetur.