Sigur Breiðabliks gegn Keflavík með þremur mörkum gegn engu í þriðju umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Nettóvellinum í Keflavík í kvöld þýðir að liðið er eitt á toppi deildinnar.

Það voru Agla María Albertsdóttir, Hildur Antonsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem skoruðu Breiðabliks sem hefur fullt hús stiga á toppnum. Mark Öglu Maríu kom undir lok fyrri hálfleiks eftir þunga pressu liðsins og Hildur og Berglind Björg bætti við forystuna í þeim síðari.

Agla María fékk tækifæri til þess að skora annað mark sitt í leiknum og fjórða mark Breiðabliks um það bil stundarfjórðungi fyrir lok leiksins en Katrín Hanna Hauksdóttir varði vítaspyrnu hennar.

Fylkir vann 2-1 sigur þegar liðið fékk KR í heimsókn. Árbæingar sem eru nýliðar í deildinni hafa sex stig eftir þrjá leiki. Valur, Stjarnan og Þór/KA hafa sex stig líkt og Fylkiskonur en liðin sitja í öðru til sjötta sæti deildarinnar.

Hulda Hrund Arnarsdóttir og Ída Marín Hermannsdóttir sáu um markaskorunina fyrir Fylki í leiknum sem fram fór á Würth-vellinum. Guðmunda Brynja Óladóttir minnkaði hins vegar muninnn fyrir KR með fyrsta deildarmarki sínu fyrir liðið en hún kom til liðsins frá Stjörnunni fyrir keppnistímabilið.

Þetta var jafnframt fyrsta mark KR í deildinni á leiktíðinni en liðið hefur ekki náð að næla sér í stig í fyrstu þremur leikjum sínum í sumar.

Selfoss náði svo í mikilvæg stig þegar liðið sótti HK/Víking heim í Kórinn í Kópavogi. Það var Grace Rapp sem skoraði sigurmark Selfoss í leiknum.

HK/Víkingur, ÍBV og Selfoss hafa hvert um sig þrjú stig í sjötta til áttunda sæti deildarinnar eftir þennan sigur Selfoss. Keflavík og KR sitja síðan stigalaus á botninum.