Valur og Breiðablik eru komin með sex stiga forskot á næstu lið á toppi Pepsi Max-deildar kvenna eftir sigra í fjórðu umferð í dag.

Ríkjandi Íslandsmeistarar Blika gerðu sér góða ferð til Akureyrar og unnu 4-1 sigur á Þór/KA sem talið var að myndi veita Blikum samkeppni um titilinn í ár.

Hildur Antonsdóttir, Agla María Albertsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir komu Blikum yfir. Sandra Mayor minnkaði muninn fyrir heimakonur áður en Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir innsiglaði sigur Blika.

Síðar í kvöld tók það Valskonur 45. mínútur að brjóta ísinn í 4-0 sigri á HK/Víking. Elín Metta Jensen, Mist Edvardsdóttir, Elísa Viðarsdóttir og Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoruðu mörkin fyrir gestina.

Í Vesturbænum nældi KR í fyrsta sigur tímabilsins með 2-1 sigri á ÍBV þrátt fyrir að leika manni færri stærstan hluta leiksins.

Þá vann Selfoss 3-2 sigur á Keflavík á heimavelli þar sem Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði sigurmarkið á 90. mínútu.