Breiðablik er úr leik í forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla en þetta varð ljóst eftir 2-1 tap liðsins í seinni leik sínum gegn Vaduz í Liechtenstein í kvöld.

Fyrri leik liðanna lyktaði með markalausu jafntefli á Kópavogsvellinum fyrir viku og því vann Vaduz einvígið samanlagt 2-1.

Mohamed Coulibaly skoraði fyrra mark Vaduz eftir tæplega klukkutíma leik og Dominik Schwizer tvöfaldaði forystu liðsins undir lok leiksins.

Höskuldur Þór Gunnlaugsson minnkaði muninn fyrir Breiðablik í uppbótartíma leiksins en lengra komust Blikar ekki og eru því úr leik.

Stjarnan sem komst áfram í aðra umferðina rétt í þessu verður því líklega eini fulltrúi Íslands í annarri umferðinni.

Senn hefst seinni leikur KR og Molde á Meistaravöllum í Vesturbænum en norska liðið fór með 7-1 sigur af hólmi í fyrri leiknum í Noregi.