Breiðablik lagði bosníska liðið SFK 2000 Sarajevo með þremur mörkum gegn einu í síðustu umferð í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í Zenica í Bosníu í dag.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði fyrsta og þríðja mark Breiðabliks í leiknum og Heiðdís Lillýardóttir átti skalla að marki bosníska liðsins í öðru markinu sem markvörðurinn missti klaufalega í markið.

Þar með skoraði Berglind Björg sex mörk í þremur leikjum fyrir Breiðablik í riðlinum. Alexandra Jóhannsdóttir átti stoðsendinguna í fyrsta marki Blika í leiknum en Selma Sól Magnúsdóttir lagði upp seinni tvö mörk Kópavogsliðsins.

Breiðablik hafði betur í öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni og fer þar af leiðandi áfram í 32 liða úrslit keppninnar en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn í dag. Það kemur í ljós á föstudaginn kemur hver verður andstæðgingur Breiðabliks í 32 liða úrslitunum.