Arnar Þór Guttormsson, faðir Þórhildar Gyðu Arnardóttur, sem kærði Kolbein Sigþórsson fyrir líkamsárás og kynferðisofbeldi árið 2018, sendi tölvupóst á almennt netfang knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, sem og formann og framkvæmdastjóra KSÍ, auk fimm starfsmanna sambandsins mánudaginn 19. mars árið 2018.

Í framangreidum tölvupósti vakti Arnar athygli á því að dóttir hans hefði nýlega kært Kolbein fyrir líkamsárás og grófa kynferðislega áreitni. Kolbeinn hafnaði sök í því máli en hann greiddi Þórhildi sáttargreiðslu.

Þá segir Arnar í tölvupóstinum að hann hafi vitneskju um að annar þáverandi leikmaður íslenska karlalandsliðliðsins í fótbolta hafi fengið á sig kæru vegna kynferðisofbeldis og líkamsárásar.

Þetta kemur fram í skýrslu úttektarnefndar íþróttasambands Íslands, ÍSÍ, sem fór yfir viðbrögð og málsmeðferð KSÍ vegna kvartana og ábendinga sem KSÍ hafa borist um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi 2010 til 2021.

„Ég vil einnig láta þess getið að ég veit að annar leikmaður liðsins fékk á sig kæru fyrir ca.2 árum. Þar sem hann barði og nauðgaði ungri konu í bíl í miðbæ Reykjavíkur.

Sú kæra var látin niður falla. Því miður veit ég með vissu að það var ekki gert vegna þess að nauðgunin átti sér ekki stað (Ísland er lítið land)," segir Arnar Þór í tölvupóstinum.

„Ég mun hins vegar ekki ræða það frekar vegna þess að ég gengst fyllilega undir þá samfélagslegu ábyrgð að maður sé saklaus uns sekt er sönnuð,“ segir hann áfram í téðum tölvupósti.