Chris Brazell, þjálfari Gróttu, var á dögunum dæmdur í þriggja leikja agabann fyrir hegðun sína í Kórnum í þarsíðustu viku, er hans menn mættu HK í Lengjudeild karla. Hann tók út fyrsta leik bannsins gegn KV nú fyrir helgi.

Brazell og hans þjálfarateymi létu Erlend Eiríksson, dómara leiksins, heyra það á meðan leik stóð, þá sérstaklega þegar HK skoraði sigurmark leiksins. Brazell vildi meina að leikmaður þeirra hafi gerst brotlegur í aðdraganda þess.

Í frétt Fótbolta.net í síðustu viku var þá sagt frá því að Brazell hafi beðið eftir Erlendi í um klukkutíma fyrir utan klefana í Kórnum eftir leik til að ná tali af honum. Dómarinn hafi þurft fylgd úr húsi.

Þá á Brazell að hafa látið ósæmilega við starfsfólk íþróttahússins.

„Hann missti algjörlega hausinn. Það er reynsluleysi af hans hálfu,“ segir Hrafnkell Freyr Ágústsson sparkspekingur í nýjasta markaþætti Lengjudeildarinnar. Þátturinn er á dagskrá Hringbrautar í hverri viku.

Hrafnkell telur að Brazell hafi með þessu brugðist liði sínu. „Svona á hann ekki að haga sér og setja liðið í þessa stöðu. Þeir þurfa á honum að halda.“

Grótta situr í fjórða sæti Lenjudeildar karla með 22 stig, ellefu stigum frá öðru sæti. Sjö umferðir eru óleiknar.