Ísland nældi í eitt stig gegn Rúmeníu á útivelli í kvöld en leikurinn var hluti af undankeppni HM 2022 í Katar.

Fyrir leikinn var ljóst að Ísland ætti ekki lengur möguleika á sæti í umspili eftir 5-0 sigur Norður-Makedóníu á Armeníu en Rúmenar urðu af mikilvægum stigum í kvöld.

Lokaleikur Íslands í undankeppninni fer fram á sunnudaginn þegar Íslendingar leika í Skopje þar sem Ísland getur jafnað Armeníu að stigum.

Birkir Bjarnason var á sínum stað í byrjunarliði Íslands í kvöld og jafnaði með því leikjamet Rúnars Kristinssonar.

Íslenska liðið átti fína kafla í fyrri hálfleik og ógnaði helst úr hornum en oftast vantaði herslumuninn til að gera atlögu að marki Rúmenana sem ógnuðu lítið marki Íslands í fyrri hálfleik.

Rúmenar færðu sig framar á völlinn eftir því sem líða tók á leikinn í leit að sigurmarki og komust næst því að skora þegar Ianis Hagi átti stangarskot.

Sveinn Aron Guðjohnsen fékk besta færi Íslands í seinni hálfleik þegar hann fékk gott skallafæri en markvörður Rúmena varði laflausan skalla hans.