Björgvin Hólmgeirsson hefur söðlað um frá uppeldisfélagi sínu, ÍR, og gengið til liðs við Stjörnuna. Björgvin gerir tveggja ára samning við Garðabæjarfélagið en hann spilaði með Stjörnunni frá 2007 til 2009. Þess utan hefur Björgvin leikið með Haukum frá 2009 til 2011 og í Þýskalandi árið 2012. Árið 2015 skellti Björgvin sér til Dúbaí og spilaði þar í tvö ár með Al Wasl.

Þá hefur bróðir Björgvins, Einar Hólmgeirsson, verið ráðinn aðstoðarþjálfari Patreks Jóhannessonar hjá Stjörnuliðinu og mun Einar einnig sinna styrktarþjálfun leikmanna liðsins. Einar hefur líkt og Björgvin leikið með Stjörnunni en það gerði hann keppnistímabilið 2013 til 2014.

Stjarnan hefur leik í Olísdeildinni föstudagskvöldið 11. september en þá fær Patrekur fyrrverandi lærisveina sína, Selfoss, í heimsókn í TM-höllina. Stjörnumenn mæta með talsvert breytt lið til leiks í vetur en Patrekur hefur hrist rækilega upp í leikmahópi liðsins eftir að hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu.