Þorleifur stimplaði sig rækilega inn í bandarísku MLS deildinna með liði sínu Houston Dynamo þegar hann byrjaði sinn fyrsta leik og skoraði sitt fyrsta mark í deildinni. Þorleifur, betur þekktur sem Thor í Houston, tileinkaði ömmu sinni sem féll frá árið 2015 markið.

Veturliði Úlfarsson, bróðir Þorleifs, horfði á leikinn í nótt ásamt bróður sínum og sá Þorleif skora sitt fyrsta mark í deildinni.

,,Þetta var mjög einstök og falleg stund og markið alveg rosalegt. Við höfum verið heima að horfa á þessa leiki hjá honum á nóttunni og bíða eftir fyrsta byrjunarliðsleiknum hjá stráknum," segir Veturliði í samtali við Fréttablaðið.

Einkar laglegt mark þar sem að Þorleifur fíflaði varnarmann LA Galaxy með skærum áður en hann þrumaði boltanum í netið. Hann fagnaði því með því að rífa sig úr treyjunni og þá mátti sjá bol sem hann klæddist og á stóð 'Fyrir ömmu Siggu.'

,,Hann tileinkaði ömmu okkar markið. Hún féll frá árið 2015 og þetta var hans leið til þess að heiðra minningu hennar."

Veturliði reynir að missa ekki úr leik hjá bróður sínum sem er á sínu fyrsta tímabili í MLS deildinni. Tímamismunurinn milli Íslands og Bandaríkjanna veldur því hins vegar að leikirnir eru oftar en ekki spilaðir þegar nóttin er skollin á hér heima.

,,Þetta var eitt af þeim kvöldum sem foreldrar okkar ákváðu að horfa ekki á leikinn en við sátum saman bræðurnir og horfðum á leikinn, það er alltaf mikil spenna fyrir þessu hjá okkur."

Þorleifur kom bróður sínum á óvart með markinu. ,,Hann er náttúrulega mjög jafnfættur en ég bjóst ekki við því að hann gæti náð einhverju úr þessu færi. Þetta kom mér mjög á óvart en hann dró þetta upp úr einhverjum hatti. Algjör snillingur."