Á laugardaginn hefst keppni í rallý-spretti á Reykjavíkurleikunum 2023 á kvartmílubrautinni í Hafnarfirði. Meðal keppenda má finna bræðurna Daníel Jökul sem er 16 ára gamall og Adam Mána sem er 14 ára. Þeir mynda langyngsta rallý-sprett sögunnar á Íslandi og faðir þeirra, mótorsportökumaðurinn Valdimar Jón Sveinsson, segir það hafa legið lengi í loftinu að synir hans myndu feta sömu leið og hann.
„Þetta er búið að vekja miklu athygli síðustu tvö ár, frá því að eldri strákurinn byrjaði að keppa. Svo er yngri bróðir hans farinn að taka sín fyrstu skref í þessu og þá náttúrulega vekur þetta enn meiri athygli,“ segir Valdimar við Fréttablaðið, spurður um áhuga sona hans á mótorsporti.
Í einu orði sagt eru þetta bara forréttindi.
Við eyðum alveg gríðarlega miklum
tíma saman í þetta
- Valdimar Jón
„Þeir eru svona að taka sín fyrstu skref í þessu, Adam Máni verður yngsti aðstoðarökumaðurinn í sögu mótorsports á Íslandi sem og yngsti ökumaðurinn þar sem hann mun aka þúsund kúbika bíl um helgina.
Hann er því að fara stela því meti af eldri bróður sínum sem hefur átt metið í tvö ár núna. Daníel var ekki alveg nógu sáttur við það en svona er þetta bara.“

Komnir á fullt tveggja ára gamlir
Valdimar er sjálfur með yfir tuttugu ára feril í mótorsporti en hann byrjaði þó ekki eins snemma og synir hans að þreifa fyrir sér í íþróttinni.
„Ég hef nánast keppt í öllum greinum mótorsports, þó mest í torfæru og rallý en byrja þó ekki fyrr en ég var tuttugu og þriggja ára gamall í þessu brölti.
Strákarnir mínir hafa hins vegar verið að síðan þeir voru tveggja ára gamlir. Þá fara þeir að reyna fyrst fyrir sér á fjórhjólum og mótorkrosshjólum.Þá hafa þeir, eftir því sem þeir urðu eldri, verið að leika sér á þessum tækjum auk vélsleða og go-kartbíla og byrja svo að taka þátt í keppnum 14 ára gamlir.“

Eldri bróðirinn, hinn 16 ára gamli Daníel Jökull, byrjaði um leið og hann náði 14 ára aldri að keppa í rallý, drifti og rallýkrossi. Það varð fljótt ljóst að hann ætti fullt erindi í mótorsport en nú þegar er hann orðinn tvöfaldur Íslands- og bikarmeistari í sínum flokkum.
Valdimar segir mótorsportbakteríuna hafa gripið þá Daníel og Adam fljótt.
„Það var eiginlega ekki annað hægt. Þeir voru með mér á öllum keppnum alveg frá því að þeir voru pínulitlir, þeir sýktust bara af þessu strax og hafa alist upp við þetta alla tíð.
Þeir skrúfa sjálfir, mála bílana sjálfir og gera sjálfir við. Sjálfur rek ég bílaverkstæði sem tekur að sér að mála bíla, rétta og gera við bíla og þeir hafa því í gegnum árin verið að sniglast hérna í kringum mig á verkstæðinu.“
Margfalt betri ökumenn
Óhætt er að segja að Daníel Jökull og Adam Máni séu með ansi frábrugðið áhugamál frá jafnöldrum sínum enda ekki algeng sjón að sjá 14 og 16 ára gutta komna á fullt í mótorsporti. Er um að ræða fullkomið áhugamál fyrir unglinga á þessum aldri?
„Þetta er náttúrulega alveg frábært áhugamál að eiga. Ef við tökum þetta bara fyrir í tilfelli þeirra þá eru þeir snemma byrjaðir á mótorkrosshjólum og fá þá strax tilfinningu fyrir því að finna jafnvægi á hjólinu og læra að sama skapi inn á hreyfingarnar sem þessu fylgja.
Svo setjast þeir við stýrið á bíl og eru margfalt betri ökumenn en nokkurn tímann miklu eldra fólk. Þegar þeir missa grip við akstur og fara í smá stjórnleysi, þá ná þeir gripi á nýjan leik sem og stjórn þrátt fyrir að bíllinn fari þversum yfir veginn.“

Margir reka kannski upp stór augu við að lesa að 16 ára gamall strákur sé farinn að keppa í mótorsporti og sé fullfær um að aka bíl í keppnum, og verða kannski enn meira hissa þegar þeir átta sig á því að hann hafi verið að þessu í tvö ár frá fjórtán ára aldri.
Regluverkið í kringum mótorsport hér á landi gerir það hins vegar kleift að krakkar sem hafa áhuga á mótorsporti og hafa brennandi áhuga á íþróttinni geti spreytt sig snemma.
„Þegar að þú kemst á fimmtánda aldursár máttu aka um á lokaðri braut á þúsund kúbika bílum. Það eru strangar reglur um þetta og kröfurnar um öryggisbúnaðinn í bílnum mjög strangar og það skiljanlega. En þetta er algjörlega málið fyrir þessa krakka.
Daníel var á sínum tíma alveg afgerandi góður í körfubolta, var valinn í afreksbúðir og fleira og setur því alltaf markið hátt en mótorsportið tók síðan hug hans allan og ég leyfði honum bara að velja sína leið.“
Bíða enn eftir bílprófi
Þrátt fyrir að Daníel Jökull og Adam Máni hafi nú þegar fengið smjörþefinn af því að aka um á bíl segir Valdimar að eftirvænting þeirra fyrir því að fá bílpróf hverfi ekki.
„Sú eftirvænting hverfur ekkert þrátt fyrir þessa reynslu þeirra. Daníel Jökull er til að mynda nú þegar búinn að kaupa sér tvo bíla, 38 tommu jeppa og svo á hann Turbo Subaru. Þessir bílar bíða bara eftir honum og á meðan nýtir hann tækifærið og stjanar við þá nánast alla daga.
Þörfin fyrir bílprófið hefur alveg minnkað hjá þeim þegar að þeir hafa nú þegar ekið svona mikið, sérstaklega hjá þessum eldri sem hefur ábyggilega ekið í alls tuttugu keppnum og verið aðstoðarökumaður í rallý, en hún hverfur samt aldrei.“

Verða frábært ökumannsteymi
Keppni helgarinnar á Reykjavíkurleikunum er fyrsta keppnin sem yngri bróðirinn, hinn 14 ára gamli Adam Máni, hefur aldur til þess að taka þátt í og hann ætlar að leggja bróður sínum lið og vera aðstoðarökumaður hans.
Valdimar hefur fulla trú á bræðrunum sem teymi.
„Þeir verða geggjaðir saman því áhuginn hjá þeim báðum er svo gríðarlega mikill. Þrátt fyrir að þeir séu ungir að árum er þekkingin sem þeir búa yfir á þessu sviði orðin svo gríðarlega mikil. Þeir eru með allt á hreinu, hvernig bíllinn á að vera uppsettur, eru góðir í að lesa nótur og allt sem þessu fylgir.“
Forréttindi fyrir föðurinn
En hvernig tilfinning er það fyrir þig sem föður að eiga sameiginlegt áhugamál á borð við þetta með sonum þínum?
„Í einu orði sagt eru þetta bara forréttindi. Við eyðum alveg gríðarlega miklum tíma saman í þetta sameiginlega áhugamál okkar, örugglega mun meiri tíma en margur pabbinn gerir með börnum sínum.

Þeir hanga með mér á verkstæðinu mínu, í öllum skólafríum eru þeir þar að græja og gera og um helgar höfum við verið að flakka saman og keppa. Svo er það þannig að eftir því sem árin líða er þessi samvera okkar ekkert að fara minnka því þeir munu alltaf vera smá háðir pabba sínum í þessu brölti.
Gallinn við þetta er hins vegar sá að eftir því sem þeir fara meir inn í þetta mun ég á móti þurfa að keppa aðeins minna en það er allt í lagi mín vegna.“
Ein stór fjölskylda
Að sögn Valdimars getur það verið mikil útgerð að halda úti keppnisliði í mótorsport. Sjálfur hefur hann verið hluti liði sem kallar sig CrashHard 99 og er sá hópur skipaður einvalaliði áhugamanna um mótorsport sem hafa látið til sín taka hér heima.
,,Mínir strákar njóta síðan góðs af því að fá með sér í þetta alla félaga mína sem hafa staðið við bakið á mér í tuttugu ár í þessu. Þeir hafa því aðgang að sex mönnum í kringum fertugsaldurinn með næga reynslu á bakinu sem eru allir að vilja gerðir til þess að hjálpa þeim í þessu. Baklandið er því gott.
Það skemmtilega við mótorsport er sú staðreynd að þú ert kannski með einn ökumann, svo kemur heil fjölskylda á bak við hann sem og þjónustulið. Þeir sem mynda þjónustuliðið eru einstaklingar sem langar að vera í mótorsporti en kannski ekki í hlutverki ökumanns.“

Þá séu keppnir haldnar víða um land, því fylgja útilegur og skemmtilegar samverustundir.
,,Þetta verður í raun bara eins stór fjölskylda. Eins og í eitt skiptið fer vél hjá eldri stráknum mínum í bílnum hans í fyrsta riðli af fjórum sem keyrðir eru yfir einn keppnisdag með svona klukkutíma millibili.
Bílapartasalan er einn af styrktaraðilum okkar og þeir komu áleiðis úr Mosfellsbæ með nýja vél í bílinn, í millitíðinni náðum við að rífa biluðu vélina úr bílnum og 45 mínútum eftir að vélin fór var ný vél komin í bílinn og hann mættur á ráslínu aftur.

Þetta er svona tveggja daga vinna á verkstæði en við gerðum þetta, sem teymi, á 45 mínútum.
Þarna komu pabbar úr öllum hinum liðunum og hjálpuðu okkur að skrúfa þetta sundur og saman, við vorum ellefu að vinna við þetta. Þetta lýsir mótorsportinu mjög vel, það eru allir vinir þrátt fyrir að keppnisskapið ráði ríkjum innan brautar.“