Tom Brady, Tiger Woods, Peyton Manning og Phil Mickelson náðu að safna tuttugu milljónum dala í góðgerðargolfleik í gær sem rennur til rannsókna á COVID-19.

Þetta er í annað sinn sem Tiger og Phil mætast í einvígi sem sýnt er í sjónvarpinu. Í þetta skiptið rann ágóðinn til góðgerðarmála og fengu þeir tvo af bestu leikstjórnendum NFL-deildarinnar frá upphafi með sér í lið.

Manning og Woods reyndust hafa betur að þessu sinni þrátt fyrir góða spilamennsku Mickelson og Brady.

Meðal þeirra sem komu við sögu í lýsendahlutverkinu voru Charles Barkley og kylfingurinn Justin Thomas.

Að vanda var Barkley duglegur í ruslatalinu og skaut föstum skotum á Tom Brady áður en Brady svaraði með því að setja niður innáhögg af löngu færi.

Eftir það bað Brady hinn kjaftfora Barkley um að þegja á léttu nótunum.

Fyrr á hringnum sagðist Barkley vera tilbúinn að styrkja hvaða málstað sem er um 50 þúsund dollara ef Brady myndi hitta flötina í upphafshögginu.

Óhættt er að segja að Brady hafi verið langt frá því að hitta flötina.

Meðal þeirra sem styrktu málefnið var Brooks Koepka, einn besti kylfingur heims þessa dagana þegar hann lofaði að styrkja um hundrað þúsund dollara ef Brady næði pari á fyrri níu.

Brady nældi í fugl með því að setja niður innáhöggið og heyrði í Koepka beint eftir holuna.

Þá nýtti Justin Thomas sér tækifærið til að skjóta á holdafar Barkley sem var yfirleitt í þykkari kantinum sem leikmaður.

Barkley hefur ekkert verið að skafa niður kílóin eftir að ferlinum lauk en hann tók skotinu ekki persónulega.