Tom Brady, besti leikstjórnandinn í sögu NFL deildarinnar stendur á tímamótum í einkalífinu nú er leiðir hans og eiginkonu hans Gisele Bündchen skilja. Tom Brady segir að á sínu æviskeiði hingað til hafi hann þurft að glíma við ýmislegt bæði innan og utan vallar, hann reyni samt ávallt að taka réttar ákvarðanir er varða sitt líf.

Á dögunum bárust fréttir af því að hjónaband Brady og Gisele Bündchen væri komið á endastöð. Með því lýkur þrettán ára hjónabandi og tæplega sextán ára sambandi. Þau giftu sig í tvígang og eignuðust tvö börn.

Brady tjáði sig um einkalíf sitt í fyrsta skipti eftir fréttirnar í hlaðvarpsþættinum Let's Go á dögunum.

„Það er mikið sem atvinnumenn þurfa að ganga í gegnum í sínu lífi, hlutir sem þeir þurfa að eiga við bæði í vinnunni sem og heima hjá sér," sagði Brady í hlaðvarpsþættinum Let's Go! „Góðu fréttirnar eru þær að þetta eru viðráðanleg verkefni og ég í raun einbeiti mér bara að tveimur hlutum: Að hugsa um fjölskylduna mín og í öðru lagi að gera mitt besta til þess að vinna leiki með mínu liði.“

Brady segir einbeitinguna vera á vinnunni þegar að hann sé í vinnunni.

„Svo þegar að maður kemur heim þá einbeitir maður sér að forgangsmálunum þar. Það eina sem maður getur gert er að gera eins vel og maður mögulega getur. Það er það sem ég mun halda áfram að gera svo lengi sem ég get stundað mína minnu og svo lengi sem ég get verið faðir.“

Brady segist hafa þurft að glíma við margar áskoranir, innan vallar sem og utan vallar.

„Við erum öll að ganga í gegnum mismunandi hluti. Eigum öll við ákveðnar áskoranir í lífi okkar. Við erum öll manneskjur og reynum að gera okkar allra besta. Ég á magnaða foreldra sem hafa kennt mér að takast á við lífið á réttan hátt. Ég vil vera frábær faðir barnanna minna og reyna í hvert einasta skipti að taka rétta ákvörðun."