Sunday Afolabi sýndi heldur betur leikræna tilburði í næst efstu knattspyrnudeildinni í Malasíu í gær þegar að lið hans Perak mætti Kelantan FA. Myndband af athæfi Afolabi undir lok leiks er komið í dreifingu á samfélagsmiðlum og er aðhlátursefni meðal netverja þessa stundina.

Atvikið átti sér stað undir lok leiks þegar leikurinn var stopp vegna aðhlynningar sem leikmaður Kelantan FA hlaut á hliðarlínunni. Afolabi stóð við aðra endalínuna og tók upp á því að dansa. Leikmaður Kelantan virtist ekkert skilja í athæfi Afolabi og er hann reyndi að komast framhjá honum féll Afolabi með miklum tilþrifum til jarðar þrátt fyrir að lítil sem engin snerting hafi orðið milli hans og leikmanns Kelantan.

En þegar í jörðina var komið tók leikþátturinn ekki enda heldur velti Afolabi sér heila níu hringi, að því sem fréttaritari kemst næst, á vellinum. Ætla má að þarna hafi Afolabi verið að reyna vinna inn dýrmætar sekúndur fyrir lið sitt enda var Perak í 2-1 forystu á þessum tímapunkti leiksins.

Leikþáttur Afolabi varð allavegana ekki til þess að Perak glutraði niður forystunni því fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum. Myndband af atviki leiksins má sjá hér fyrir neðan: