Forráðamenn Barcelona eru að leggja lokahönd á kæru vegna tilrauna Atletico Madrid til að sleppa við að greiða Börsungum fyrir franska landsliðsmannin Antoine Griezmann.

Griezmann gekk í raðir Atletico á tveggja ára lánssamning árið 2021, tveimur árum eftir að Börsungar greiddu 120 milljónir evra fyrir framherjann.

Í samningi Börsunga og Atletico var samþykkt um að Atletico væri skuldbundið til að kaupa Griezmann á 40 milljónir evra ef hann myndi uppfylla ákvæði samningsins um að spila rúmlega 50 prósent mínútna í leikjum Atletico.

Börsungar telja að samkomulagið hafi snúist um síðasta tímabil en Atletico telur að það hafi verið yfir allan lánstímann. Atletico hefur til þessa skipt Griezmann inn á völlinn um miðbik seinni hálfleiks í öllum fimm leikjum tímabilsins.

Með því telur Atletico að félagið sé ekki skuldbundið til að greiða umsamda upphæð fyrir Griezmann en lögfræðingar Barcelona telja að Griezmann og Atletico séu þegar búnir að virkja ákvæðið.