Barcelona skrifaði í dag undir samning við fjárfestingafyrirtækið Sixth Street um sölu á tíu prósentum af sjónvarpstekjum Börsunga næstu 25 árin fyrir 207,5 milljónir evra eða tæplega 29 milljarða íslenskra króna.

Með því tekst Börsungum að rétta af fjárhaginn í tæka tíð og koma út í hagnaði í tæka tíð áður en nýtt rekstrartímabil hefst á morgun.

Sixth Street ætti að hagnast vel á fjárfestingunni, en miðað við sjónvarpstekjur síðasta árs ætti fyrirtækið að fá um 400 milljónir evra í sinn hlut á meðan samningurinn er í gildi.

Barcelona hefur átt í stökustu vandræðum fjárhagslega undanfarna mánuði og voru um tíma á barmi gjaldþrots.

Forráðamenn félagsins hafa reynt ýmis brögð til að létta á útgjöldum meðal annars með því því að bjóða leikmönnum að rifta samningi sínum eða yfirgefa félagið frítt til að losna við þá af launaskrá.

Á dögunum kom fram að Barcelona þyrfti um hálfan milljarð evra til að halda floti vegna skammtímaskulda en þeim virðist hafa tekist að fjármagna helming þeirra.

Þrátt fyrir grafalvarlega stöðu stefna forráðamenn félagsins enn á metnaðarfullar framkvæmdir á heimavelli félagsins, Nývangi.