Forráðamenn Barcelona eru æfir og eru tilbúnir að kæra Roma eftir að ítalska félagið ákvað að hætta við fyrri áform um æfingaleiki karla- og kvennaliðs félaganna í byrjun ágústmánaðar.

Liðin áttu að mætast á Nývangi í hinum árlega Joan Gamper æfingaleik sem hefur síðasti æfingaleikur Börsunga fyrir tímabilið frá árinu 1966. Á síðasta ári var keppt í karla- og kvennaflokki í fyrsta sinn.

Rómverjar tilkynntu Börsungum skyndilega að hvorki karla- né kvennalið félagsins myndu mæta til leiks en Börsungar voru búnir að auglýsa leikinn með tilliti til þess að Jose Mourinho, fyrrum þjálfari Real Madrid, myndi mæta með lærisveina sína.

Í yfirlýsingu frá Roma þakkaði félagið fyrir boðið og óskaði Börsungum góðs gengis á næsta tímabili. Ákvörðunin hafi verið tekin vegna nauðsynlegra breytinga á undirbúningstímabilum karla- og kvennaliðs félagsins.