Forstöðumaður munaðarleysingjahælis í Gana sem er starfrækt af góðgerðasamtökunum Becky's Foundation, segir að fráfall ganverska knattspyrnumannsins Christian Atsu hafi haft djúpstæð áhrif á krakkana sem þar búa, þau hafi mörg hver kallað Atsu föður sinn.
Atsu, sem var leikmaður tyrkneska félagsins Hatayspor, lét lífið í jarðskjálftunum stóru sem riðu yfir Tyrkland og Sýrland í síðasta mánuði. Lík hans fannst í rústum byggingar þann 18. febrúar síðastliðinn.
Þessi atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu hafði lagt sitt af mörkum til þess að styðja við starfsemi munaðarleysingjahælis í heimalandi sínu Gana.
„Við báðum til guðs og vonuðumst eftir því að hann myndi finnast á lífi í rústunum,“ sagði Seth Asiedu, stjórnandi Becky's Foundation í viðtali í þættinum Africa Daily sem er starfræktur af BBC
„Þegar að við fengum fréttirnar, að Atsu hefði fundist látinn, urðu börnin mjög niðurdregin. Í kjölfarið höfum við boðið þeim áfallahjálp og sálfræðitíma til þess að vinna með og komast yfir sorgina sem þessu fylgir.“
Atsu hafði lagt sitt af mörkum í samstarfi við Becky's Foundation, meðal annars var hann að hjálpa til við að koma upp skóla í strandbænum Senya Beraku í Gana.
„Með fráfalli hans misstum við öflugan styrktaraðila. Hann útvegaði pening, mat, föt og fleira handa börnunum. Í raun tók hann þátt í öllum pakkanum, borgaði fyrir skólagöngu þeirra, skólagögn, skólabúninga.“
Þá hafi hann oft komið við á munaðarleysingjahælinu í Gana, stundum óvænt, börnunum til mikillar gleði.
„Þegar að hann steig út úr bílum sínum hérna hlupu börnin til hans og hoppuðu á hann. Þau kölluðu hann frænda sinn, sum kölluðu hann föður sinn.“