Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðið Evrópska knattspyrnusambandinu (UEFA) að fleiri leikir á Evrópumótinu í knattspyrnu, sem til stendur að halda í 12 borgum í jafn mörgum löndum í Evrópu í sumar, fari fram á breskri grundu. Undanúrslitaleikir mótsins og úrslitaleikurinn munu fara fram á Wembley.

Þá tilkynnti forsætisráðherrann enn fremur í gær til stæði að Bretland og Írland myndu sækja um að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla í sameiningu árið 2030. Boris Johnson segir að bresk stjórnvöld geri ráð fyrir 2,8 milljónum punda í verkefnið í nýjasta fjárlagafrumvarpi sínu.

England hélt heimsmeistaramótið í fyrsta og eina skiptið 1966, en þar varð liðið heimsmeistari í fyrsta og eina skiptið í sögunni.