Þýska tennisgoðsögnin Boris Becker sem vann á sínum tíma sex risamót var í dag sakfelldur fyrir að reyna að koma fjármunum og verðlaunagripum undan gjaldþrotaskiptum.

Becker var sakfelldur í fjórum liðum af 24 og gæti átt von á allt að sjö ára fangelsi.

Becker sem vann á sínum tíma 49 mót, þar af sex risamót og vann sér inn 25 milljónir dala á tennisvellinum, óskaði eftir gjaldþrotaskiptum árið 2017 þegar hann gat ekki greitt af fasteignaláni af húsi í hans eigu á Spáni.

Í dómssalnum kom fram að Becker hafi reynt að koma undan 950 þúsund pundum sem hann fékk í sinn hlut fyrir sölu á bílaumboði í Þýskalandi og öðrum 350 þúsund pundum sem hann millifærði á vini og fyrrum eiginkonur sínar.

Þá hafi hann farið leynt með fasteign í Þýskalandi sem er verðmetin á 1,8 milljón evra, hlutabréf og peninga sem hann fékk með láni sem var tekið í Liechtenstein.

Hann slapp hinsvegar undan ásökunum um að halda eftir verðlaunagripum sem umsjónaraðili gjaldþrotaskiptanna vildi selja í von um að fá greiðslur upp í skuldir Beckers.