Boris Johnson, forsætirsáðherra Bretlands, telur að það sé ekki rétt að transkonur geti tekið þátt í íþróttakeppnum kvenna en viðurkenndi að þetta væri erfitt málefni.
Þetta kom fram þegar Boris sat fyrir spurningum í dag en hann sagðist telja það óréttlát að konur væru að keppa við einstaklinga sem fæddust í karlmannslíkama.
Formaður breska hjólreiðasambandsins, Sara Symington, var 76 kvenna sem skrifuðu undir áskorun til Alþjóðahjólreiðasambandsins í vikunni um að banna transkonum að taka þátt í keppnum á þeirra vegum.
Málefnið hefur verið til umræðu í Bretlandi undanfarna daga eftir að Alþjóðahjólreiðasambandið ákvað að banna transkonunni Emily Bridges að taka þátt í Opna breska meistaramótinu í hjólreiðum.
Sjálf neyddist Bridges til að loka samskiptamiðlum sínum vegna hatursfullra skilaboða sem henni hafa borist undanfarna daga.
Bridges á landsmet karla í 25 mílna hjólreiðum og var meðal þeirra bestu í karlaflokki áður en hún fór í kynjaleiðréttingu á síðasta ári.
Samkvæmt reglum Alþjóðahjólreiðasambandsins er gerð krafa um að magn testósteróns sé undir fimm nanómól á lítra í tólf mánuði en Bridges fór í kynleiðréttingu á síðasta ári.
Málið kemur upp nokkrum vikum eftir að Lia Thomas varð fyrsta transkonan til að vinna landsmeistaratitil í bandarískum háskólaíþróttum þegar hún vann til gullverðlauna í 500 jarda skriðsundi.
Í kjölfarið af sigri Liu hafa fjölmargir stigið fram og gagnrýnt ákvörðunina að leyfa Liu að keppa, meðal annars forseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins.