Robert Sarver, eigandi Phoenix Suns í NBA-deildinni, vill selja félagið. Hann var á dögunum settur í eins árs bann af NBA og sektaður um tíu milljónir Bandaríkjadala vegna óviðeigandi hátterni á vinnustað.

Rannsakendur í málinu komust að þeirri niðurstöðu að Sarver hafi hegðað sér með óviðeigandi hætti í garð kvenkyns starfsmanna sinna, til að mynda með kynferðislega tengdum ummælum. Þá er hann sakaður um rasisma í fimm tilfellum.

Stjörnur í körfuboltaheiminum, þar á meðal LeBron James, hafa kallað eftir því að Sarver fái harðari refsingu.

Sarver er einnig eigandi Phoenix Mercury í WNBA. Hann er sömuleiðis í banni þar.

„Þetta er besta lausnin fyrir alla. Ég vil ekki vera truflun,“ segir Sarver.

„Ég vil það sem er best fyrir félögin tvö, leikmenn starfsmenn, þjálfara, stuðningsmenn, samfélagið og aðra eigendur.“

„Samfélagið í dag fyrirgefur ekki og það er mér alveg ljóst að sama hvort ég hafi gert góða hluti í framtíðinni eða muni gera það í fortíðinni verður það að engu vegna þess sem ég hef gert.“

Adam Silver, yfirmaður NBA, tjáði sig um málið á dögunum. „Það er erfitt að hlusta á lýsingarnar af hegðuninni. Þetta eru mikil vonbrigði,“ sagði hann.

„Við teljum að útkoma rannsóknarinnar sé rétt þegar allt er tekið inn í myndina. Þetta var alhliða rannsókn á átján ára tímabili. Við viljum að staðallinn sé hár á vinnustöðum tengdum NBA.“