Ábúendur á bænum Hlíðarenda í Breiðdal urðu heldur betur undrandi þegar þeim barst bréf sem stílað var á Frank Aron Booker, leikmann Vals í körfubolta. Þegar ábúendur fóru að skoða málið betur kom meira að segja í ljós að Booker er skráður til lögheimils á bænum. Austurfrétt greinir frá.

„Við höfðum samband við Þjóðskrá og þá kom í ljós að hann hafði búið hér síðan í september. Ég spurði hvort við ættum ekki að fá tilkynningu um svona skráningu og fengum þau svör að hana væri mögulega að finna á Island.is,“ segir Gróa Jóhannsdóttir bóndi á Hlíðarenda í samtali við Austurfrétt.

Það er ansi langt á milli Hlíðarenda og Hlíðarenda.

Booker, sem er sonur Frank Booker sem átti farsælan feril hér á Íslandi og spilaði þrjú ár með Val, á íslenska móður. Hann var valinn í íslenska landsliðið í fyrsta sinn í fyrrasumar. Valur spilar sína heimaleiki á Hlíðarenda - eins og flestir ættu að vita. Samkvæmt ja.is eru 626 kílómetrar á milli Hlíðarenda og Hlíðarenda og myndi taka um níu klukkustundir að keyra.

Gróa sér þó skoplegu hliðarnar á þessu öllu saman. „Það hefur farið óskaplega lítið fyrir honum, við höfum ekkert orðið vör við hann. Ekkert drippl, engar troðslur.“