Knattspyrnusérfræðingurinn Fabrizio Romano sem er vel tengdur inn í knattspyrnuheiminn segir Chelsea vera reiðubúið til að klára samninga við Graham Potter, knattspyrnustjóra Brighton og gera hann að næsta knattspyrnustjóra félagsins.

Thomas Tuchel var í gær rekinn frá Chelsea eftir að hafa stýrt félaginu frá því í janúar árið 2021. Úrslitin hafa hins vegar ekki verið spes í upphafi yfirstandandi tímabils og því ákvað Todd Boehly, sem er í forsvari fyrir eigendahóp Chelsea að tilkynna honum að starfskrafta hans væri ekki lengur óskað.

Strax fóru af stað sögusagnir um það hver yrði næsti knattspyrnustjóri Chelsea og félagið var ekki lengi að koma sér af stað í viðræður. Forráðamenn Chelsea fóru strax í það að fá leyfi frá Brighton til að ræða við Graham Potter sem er efsti maður á lista hjá Chelsea.

Stuttu seinna sátu þeir fund með Potter sem var árangursríkur og nú segir Fabrizio Romano að boltinn sé hjá Potter, vilji hann taka við Chelsea þá sé hægt að ganga frá samningum í dag.

„Samningstilboð Chelsea er tilbúið, félagið vill klára ráðningu á Graham Potter í starf knattspyrnustjóra. Í dag kemst loka niðurstaða í málið. Nú liggur boltinn hjá Potter."

Jóhann Már Helgason, knattspyrnusérfræðingur og stuðningsmaður Chelsea vill sjá Potter taka við stjórnartaumunum hjá Chelsea.

„Ég vil fá Graham Potter inn, gefa honum tæki­færi. Mér finnst hann vera frá­bær knatt­spyrnu­stjóri og hef talað um það lengi. Ég byrjaði að fylgjast með honum þegar hann tók þetta Östersund ævin­týri í Sví­þjóð og það sem er gaman við hann er að liðin sem hann tekur við virðast alltaf ná að gera betur en væntingar standa til."