Usain Bolt, heimsmethafi í 100 og 200 metra hlaupi, skoraði sín fyrstu mörk fyrir ástralska liðið Central Coast Mariners í dag.

Mariners mættu þá Macarthur South West í vináttuleik sem Bolt og félagar unnu 4-0.

Ross McCormack, sem er á láni frá Aston Villa, kom Mariners yfir á 7. mínútu og þremur mínútum fyrir hálfleik bætti Jordan Murray öðru marki við.

Í seinni hálfleik var svo komið að þætti Bolt. Jamaíkumaðurinn var nálægt því að skora með skalla í upphafi seinni hálfleiks en honum urðu ekki á nein mistök á 57. mínútu. Bolt fékk þá sendingu inn fyrir vörn Macarthur, vann varnarmann í kapphlaupi (eðlilega) og skoraði með vinstri fótar skoti.

Sá jamaíski var ekki hættur og á 68. mínútu skoraði hann sitt annað mark.

Bolt hafði öllu minna fyrir því en fyrra markinu. Markvörður og varnarmaður Macarthur voru á sitt hvorri bylgjulengdinni og Bolt átti ekki í neinum vandræðum með að skora í autt markið.

Bolt dreymir um að verða atvinnumaður í fótbolta og hefur æft með Mariners síðan í ágúst. Hann hefur einnig æft með þýska stórliðinu Borussia Dortmund.

Bolt lagði hlaupaskóna á hilluna í fyrra eftir stórkostlegan feril þar sem hann vann m.a. til átta verðlauna á Ólympíuleikum.