Barcelona er nánast öruggt með toppsætið í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta eftir risasigur á Kristianstad, 43-26, á heimavelli í kvöld. 

Ef Barcelona vinnur riðilinn sleppur liðið að leika í 16-liða úrslitum keppninnar og fer beint í 8-liða úrslitin.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna voru yfirburðir Börsunga í leiknum í kvöld miklir. Þeir voru níu mörkum yfir í hálfleik, 21-12.

Aron Pálmarsson var ekki á meðal markaskorara hjá Barcelona sem hefur unnið tíu af tólf leikjum sínum í riðlakeppninni. Kamil Syprzak og Aleix Gomez voru markahæstir Börsunga með sex mörk hvor.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Kristianstad. Ólafur Guðmundsson og Teitur Örn Einarsson skoruðu tvö mörk hvor. Kristianstad er í áttunda og neðsta sæti riðilsins en á enn möguleika á að komast í 16-liða úrslit.