Katrín Tanja Davíðsdóttir er ein af íþróttamanneskjunum sem koma fram í nýjasta Body Issue tímariti ESPN þar sem fremsta íþróttafólk heims situr fyrir hálf nakið.

Myndirnar má sjá hér og hér fyrir neðan má sjá viðtal við Katrínu þar sem hún ræðir þessa myndatöku ásamt svipmyndum frá myndatökunni.

„Þetta er draumur að rætast (e. bucket list), ég hef hugsað um það hvað það yrði mikill heiður að koma fram einn daginn í Body Issue tímariti ESPN. Þetta er einn ótrúlegasti hlutur sem ég hef og mun gera á lífsleiðinni og þetta efldi mig,“ sagði Katrín Tanja og hélt áfram:

„Ég hef lagt heilmikla vinnu í það sem ég geri og þar upplifi ég hvað líkaminn getur gert. Þetta tímarit fangar það vel, að sýna fram á hvað líkamar geta gert hjá fremsta íþróttafólki heims. Það eru líkamar frá fremsta íþróttafólki heims í mismunandi íþróttagreinum og hver og einn er mismunandi. Það er ómetanlegt fyrir mig að fá að taka þátt í þessu.“

Katrín Tanja ræðir heiðurinn að vera tvöfaldur heimsmeistari í CrossFit.

„Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég hugsa til baka um þessa stund, að fá titilinn hraustasta kona heims var hápunkturinn. Maður þarf að vera góður í öllu og tilbúinn í hvaða þraut sem er, lyftingar, hlaup og fimleikum. Það er ekki hægt að verða fullkomin í CrossFit, það er alltaf hægt að bæta sig.“

Þá segist Katrín Tanja hafa hafa heyrt gagnrýnisraddir.

„Ég hef oft heyrt að ég sé of mössuð, of stór eða of grönn. Það eru alltaf einhverjar raddir og skoðanir en líkami minn endurspeglar allt það sem ég hef lagt í hann. Ég er afar stolt af líkama mínum. “