Sigur Leon Edwards á Kamaru Us­man í titil­bar­daga velti­vigtar­deildar UFC um síðustu helgi hefur sett af stað at­burðar­rás innan UFC sam­bandsins. Dana White, for­seti UFC boðar stærsta bar­daga­kvöld sem Evrópa hefur séð og verður haldið í Bret­landi þar sem þriðji bar­dagi Edwards og Us­man verður aðal­málið.

Edwards varð um helgina að­eins annar Bretinn í sögu UFC til þess að verða meistari en fyrir bar­dagann var hann talinn ó­lík­legur til sigurs. Edwards lagði af velli ríkjandi meistarann Kamaru Us­man í titil­bar­­daga velti­vigtar­­deildarinnar en Us­man hafði fyrir hann unnið 19 bar­daga í röð og varið titil sinn í velti­vigtar­deildinni fimm sinnum.

Leon Edwards varð veltivigtarmeistari um síðustu helgi
Fréttablaðið/GettyImages

Staðan í rimmum bar­daga­kappanna er því orðin 1-1 en Us­man hafði unnið Edwards í bar­daga þeirra á milli árið 2015. Nú segir Dana White, for­seti UFC að sam­bandið sé nú þegar farið að horfa til bar­daga­kvölds í Bret­landi þar sem úr­slita­rimma Edwards og Us­man verður aðal­númerið. Í þeim um­ræðum hefur Wembl­ey, þjóðar­leik­vangur Eng­lendinga verið nefndur til sögunnar sem mögu­legur vett­vangur bar­daga­kvöldsins.

„Þetta bar­daga­kvöld verður risa­stórt. Ekki bara fyrir Bret­land heldur Evrópu í heild sinni. Þetta yrði haldið á besta mögu­lega tíma í Bret­landi," sagði Dana White á blaða­manna­fundi. Að­spurður hvort Wembl­ey væri raun­hæfur kostur fyrir bar­daga­kvöldið hafði Dana þetta að segja:

,,Við erum að skoða alla stærstu leik­vanga Bret­lands. Það var ekki á­ætlun hjá okkur að fara til Bret­lands strax en við erum að fara þangað aftur núna," sagði Dana og undir­strikaði það hversu lengi hann hefði verið að vinna að því að vera með bar­daga­kvöld reglu­lega í Bret­landi. ,,Við vorum búin að á­kveða að halda annað og vera með bar­daga­kvöld í öðru landi en við erum hætt við það núna."

Bretland hefur risið upp metorðalistann

UFC hefur undan­farna ára­tugi verið að þróa sig á­fram með bar­daga­kvöld í Bret­landi. Í þeim efnum ber kannski fyrst að nefna UFC 38 bar­daga­kvöldið sem fór fram við glæstar að­stæður í Royal Albert Hall, bar­daga­kvöld þett sem Brawl in the Hall. Þar steig heima­maðurinn Michael Bisping inn í bar­daga­búrið og varð fyrsti breski UFC meistarinn.

Gunnar Nelson mætti Leon Edwards í bardagabúrinu í London árið 2019
Fréttablaðið/GettyImages

Síðast­liðin ár hafa bar­daga­kvöld í Eng­landi slegið í gegn og þá helst í 02 höllinni bæði árið 2019 og nú í mars á þessu ári. Ís­lenski UFC bar­daga­maðurinn Gunnar Nel­son hefur til að mynda barist á báðum bar­daga­kvöldunum sem eru oftar en ekki fyllt upp með bæði lengra komnum sem og efni­legum breskum bar­daga­köppum í bland við stjörnur öðrum löndum Evrópu eða Banda­ríkjunum.

Þá var bar­daga­kvöld í O2-höllinni í London í síðasta mánuði sem sló í gegn. Ekki er komin dagsetning á þetta risastóra bardagakvöld sem UFC boðar en ætla má að ekki muni líða að löngu þar til UFC opinberi dagsetningu, stað og stund.