FH-ingar reyna nú allt til þess að snúa slæmu gengi knattspyrnuliðs karla hjá félaginu við en FH er sem stendur aðeins einu stigi frá fallsæti. Eiður Smári Guðjohnsen var í júní ráðinn inn sem þjálfari eftir slæmt gengi liðsins undir stjórn Ólafs Jóhannessonar, gengið hefur hins vegar ekki batnað undir stjórn Eiðs Smára og hefur liðið ekki unnið leik undir hans stjórn í Bestu deildinni.

„Félagar - Oft er þörf nú er nauðsyn," segir í viðburði sem FH-ingar hafa boðið til á Facebook. „Staðan hefur verið bjartari en nú er komið að upprisunni. Við blásum til veislu í sjónarhól. Sjálfur Eiður Smári, Sigurvin Ólafsson og Director Davíð Þór Viðarsson mæta og fara yfir stöðuna og ræða það sem framundan er og léttar veitingar á boðstólnum."

Fæstir bjuggust við því að FH væri að berjast í neðri hluta Bestu deildarinnar á þessum tímapunkti, hvað þá að liðið væri svona nálægt fallsvæði. En FH er í 10. sæti deildarinnar með 11 stig, einu stigi meira en Leiknir Reykjavík sem situr í fallsæti og á leik til góða á FH.

„Þetta er ný staða fyrir alla í félaginu sama hvort það séu leikmenn, stjórnendur eða stuðningsmenn. Við erum í stöðu sem við höfum ekki verið í síðan 1995 svo nú er það eina sem við getum gert að þjappa raðirnar og búa til alvöru stemmningu."

,,Munum eitt - Nóttin er dimmust rétt fyrir sólarupprás," segir í lokaorðum FH-inga á viðburðinum sem fer fram í kvöld.