Alþjóða tennissambandið, WTA, tilkynnti í dag að einstaklingar sem væru ekki búnir að þiggja bóluefni við Covid-19 gætu tekið þátt í Opna ástralska meistaramótinu í tennis en þyrftu að fara í sóttkví og fara í reglubundna skimun.

Þetta kemur fram í bréfi WTA til leikmanna sem er til umfjöllunar á vef BBC.

Á dögunum ítrekuðu áströlsk stjórnvöld að óbólusettum leikmönnum yrði ekki hleypt inn í landið og að það yrðu engar undantekningar á því.

Áætlað er að um þriðjungur þeirra sem keppa á stærstu mótaröð heims í tennis séu óbólusettir, þar á meðal Novak Djokovic sem vann þrjá risatitla á síðasta ári.

Djokovic vantar einn risatitil til að skjótast fram úr Roger Federer og Rafa Nadal sem sá karlmaður sem hefur unnið flesta risatitla. Þeir eru jafnir þessa dagana með tuttugu titla hver.

Serbinn hefur ekki verið tilbúinn að gefa það út hvort að hann sé bólusettur og gaf til kynna á dögunum að hann myndi sennilega ekki taka þátt í Opna ástralska meistaramótinu þetta árið eftir að gefið var út að þess yrði krafist af leikmönnum að vera bólusettir.