Glazer fjölskyldan sem á enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur óskað eftir aðstoð við að selja hlut í félaginu og allt félagið ef gott tilboð berst.

Undanfarin ár hefur stuðningsmannahópur félagsins kallað eftir því að Glazer fjölskyldan selji félagið og virðast þeir nú vera að fá ósk sína uppfyllta.

Óvíst er hvort að fjölskyldan sé að leitast eftir fjárfesti til að kaupa hlut í félaginu eða að leitast eftir því að selja félagið í heild sinni.

Fréttirnar koma nokkrum dögum eftir að tilkynnt var að eigendur Liverpool væru einnig að huga að sölu á félaginu.

Glazer fjölskyldan keypti Manchester United um mitt sumarið 2005 og hefur félagið ekki unnið ensku úrvalsdeildina undanfarin níu ár.