Breiðablik burstaði Fylki 5-0 þegar liðin mættust í níundu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvellinum í kvöld.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir skoruðu tvö mörk hvor fyrir Breiðablik í leiknum og Agla María Albertsdóttir bætti fimmta markinu við.

Agla María hefur nú skorað átta mörk í deildinni í sumar, jafn mörg og Stephany Mayor framherji Þórs/KA og einu marki minna en Elín Metta Jensen sóknarmaður Vals sem er markahæst.

Berglind Björg hefur hins vegar komið boltanum sjö sinnum í mark andstæðinganna í deildinni á leiktíðinni og Alexandra fjórum sinnum.

Valur og Breiðablik eru jöfn að stigum með 25 stig á toppi deildarinnar eftir þessa umferð en Valsliðið er í toppsætinu þar sem liðið er með betri markatölu.

Góð byrjun hjá Rögnu Lóu í brúnni hjá KR

Barbára Gísladóttir tryggði svo Selfossi 1-0 sigur í leik liðsins gegn ÍBV í Vestmannaeyjum. Selfoss er í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig eftir þennan sigur en ÍBV er aftur á móti í sjötta sæti með níu stig.

KR lyfti sér síðan úr botnsæti deildarinnar með því að leggja Stjörnuna að velli með einu marki gegn engu á Meistaravöllum.

Það var ástralski miðvalkarleikmaðurinn Grace Maher sem skoraði sigurmark KR-liðsins sem lék í fyrsta skipti undir stjórn Rögnu Lóu Stefánsdóttur sem aðalþjálfara liðsins.

Keflavík og HK/Víkingur eru nú í fallsætum með sex stig hvort lið en KR og Fylkir eru þar fyrir ofan bæði með sjö stig. Stjarnan er í fimmta sæti með 10 stig.

Þór/KA sem er í þriðja sæti deildarinnar með 14 stig fær HK/Víking í heimsókn í lokaleik umferðarinnar annað kvöld.