Íslandsmeistarar Blika hófu undankeppni Meistaradeildar Evrópu á 4-1 sigri á ASA Tel Aviv í Bosníu í dag þar sem undanriðill Blika fer fram næstu dagana.

Blikar eru með ísraelska liðinu, ZFK Dragon frá N-Makedóníu og heimaliðinu Sarajevo í riðli þar sem efsta liðið kemst áfram í 32-liða úrslitin.

Selma Sól Magnúsdóttir kom Blikum yfir á upphafsmínútum leiksins og stuttu síðar var Agla María Albertsdóttir búin að bæta við marki fyrir Blika.

Hildur Þóra Hákonardóttir komst á blað í á 60. mínútu áður en Agla María innsiglaði sigurinn af vítapunktinum sex mínútum síðar.

Ísraelska liðinu tókst að minnka muninn tuttugu mínútum fyrir leikslok en nær komust þær ekki.