Valskonur voru einni mínútu frá því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í kvöld þegar Valur og Breiðablik skildu jöfn 1-1 í toppslag Pepsi Max-deildar kvenna.

Blikar jöfnuðu metin á 95. mínútu leiksins með síðustu spyrnu leiksins sem frestaði fagnaðarlátum Vals um tæpa viku.

Valur mætir Keflavík í lokaumferðinni sem féll úr deildinni fyrr í dag og dugar jafntefli á meðan Breiðablik mætir Fylki.

Ljóst var fyrir leikinn að Breiðablik þyrfti á sigri að halda. Valssigur í dag þýddi að Valur væri Íslandsmeistari en jafntefli fór langt með að tryggja Valskonum titilinn fyrir lokaumferðina um næstu helgi.

Blikar byrjuðu leikinn af krafti og sóttu talsvert í fyrri hálfleik þegar Blikar léku með vindinn í bakið en það voru Valskonur sem komust yfir með marki frá Fanndísi Friðriksdóttur.

Fanndís fékk þá boltann við vítateigslínuna og átti skot sem Sonný Lára Þráinsdóttir var í en náði ekki að verja.

Meira jafnræði var í leiknum í seinni hálfleik þegar Blikar leituðu að jöfnunarmarkinu á meðan Valsliðið sat aftar og var tilbúið að refsa með skyndisóknum. Í einni slíkri fékk Margrét Lára Viðarsdóttir dauðafæri til að bæta við marki en setti boltann framhjá.

Blikar fengu fjölmörg fín færi til að reyna á Söndru Sigurðardóttur í marki Vals en virtust ekki ætla að ná að að skora fyrr en Heiðdís Lillýardóttir jafnaði metin á lokasekúndum leiksins.