Valur ætti að eiga nokkur greiða leið á næsta stig undankeppninnar fyrir Meistaradeild Evrópu en Blikar fá heldur erfiðara verkefni sem hefst með leik gegn Selmu Sól Magnúsdóttir og stöllum í Rosenborg.

Dregið var í fyrstu umferð undankeppninnar fyrir Meistaradeild Evrópu í dag og voru tvö íslensk lið í pottinum, Breiðablik sem komst í riðlakeppnina í fyrra og Valur.

Bæði voru þau í efri styrkleikaflokki og dróst Valur með Hayasa frá Armeníu, Pomurje Beltinci frá Slóveníu og Shelbourne frá Írlandi í riðli. Eitt lið fer áfram á næsta stig undankeppninnar og mæta Valskonur Hayasa í fyrri umferðinni.

Blikar mæta Rosenborg frá Noregi og komist þær áfram á næsta stig bíða Minsk frá Hvíta-Rússlandi og Slovácko frá Tékklandi í næstu umferð.

Blikar gátu vissulega fengið erfiðari andstæðinga úr neðri styrkleikaflokki en ljóst er að þær þurfa að eiga sinn besta dag til að slá út norska félagið.

Sara Björk Gunnarsdóttir gæti þreytt frumraun sína með Juventus í Meistaradeildinni eftir að ítalska félagið lenti í riðli með Racing FC Union frá Lúxemborg, Flora Tallin frá Eistlandi og Qiryat Gat frá Ísrael.