Sigur Breiðabliks gegn Fylki í áttundu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu kvenna á Würth-vellinum í gærkvöldi þýðir að liðið hefur haft betur í öllum sjö leikjum sínum í deildinni til þessa í sumar. Lokatölur í leiknum urðu 4-0 Breiðabliki í vil og þar af leiðandi hefur Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður Blikaliðsins, ekki enn þurft að sækja boltann í net sitt í deildinni á yfirstandandi leiktíð.

Sonný Lára var þarna að bæta persónulegt met sitt í því að halda marki sínu hreinu í deildarleikjum en hún kom í veg fyrir að Fjölniskonur fengu á sig mark í sex leikjum í röð í 1. deildinni sumarið 2013. Þá voru það KR-ingar sem brutu ísinn og komu boltanum framhjá henni.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði tvö marka Blika í leiknum, Berglind Björg Þorvaldsdóttir það þriðja og fjórða markið var svo sjálfsmark. Berglind Björg hefur skorað 11 deildarmörk fyrir Breiðablik á keppnistímabilinu og er markahæst. Sveindís Jane Jónsdóttir kemur næst hjá Breiðabliki með sex mörk og Alexandra Jóhannsdóttir þar á eftir með sín fimm mörk.

Agla María Albertsdóttir hefur svo lagt þrjú mörk í púkkinn og Karólína Lea var að skora fín fyrstu tvö mörk í deildinni í sumar í leiknum í gær. Breiðablik hefur tveggja stiga forskot á Val á toppi deildarinnar en liðið á þar að auki einn leik til góða. Fylkir er síðan í þriðja sæti með 12 stig.