Breiða­blik hefur borið höfuð herðar yfir önnur lið í Bestu deildinni hingað til. Óskar Hrafn Þor­valds­son, þjálfari liðsins hefur náð að setja saman lið sem er ill­við­ráðan­legt en í kvöld mætir Breiða­blik liði sem það hefur átt erfitt með undan­farin ár en virðist nú hafa fundið svör við.

KR-ingar mæta í heim­sókn á Kópa­vogs­völlinn í kvöld í því sem búist er við að verði ansi fjörug viður­eign. Blikar hafa, undir stjórn Óskars Hrafns, átt í tölu­verðum vand­ræðum með KR-inga. Allt þar til í apríl fyrr á þessu ári.

Liðin mættust þann 25. apríl síðast­liðinn á Meistara­völlum í Vestur­bænum þar sem að Blikar tóku öll þrjú stigin sem í boði voru með 0-1 sigri eftir mark Jasons Daða Svan­þórs­sonar.

Takist Blikum að bera sigur úr býtum gegn KR í kvöld verður það í fyrsta skipti síðan árið 2012 sem liðinu tekst að vinna tvo leiki í röð gegn KR í efstu deild. Þá var Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari Breiðabliks en sami maður var í brúnni hjá KR þá eins og raunin er nú, Rúnar Kristinsson.

Sigurinn í apríl fyrr á þessu ári var fyrsti sigur liðsins á KR undir stjórn Óskars Hrafns sem tók við stjórnar­taumunum á Kópa­vogs­velli í októ­ber árið 2019. Frá þeim tíma­punkti hafa liðin mæst fimm sinnum í efstu deild og einu sinni í bikarnum, alls sex sinnum.

Af þeim leikjum hefur KR unnið fjóra, Breiða­blik einn og þá gerðu liðin jafn­tefli í deildinni í júlí árið 2021.

Breiða­blik hefur því tekist að stoppa blæðinguna í síðustu tveimur leikjum og fara inn í leik kvöldsins sem sigur­strang­legri aðilinn og svo til pressu­lausir.

Blikar eru með mikið for­skot á toppi Bestu deildarinnar. Hafa að­eins tapað einum leik og eru með 27 stig eftir tíu um­ferðir, 8 stigum meira en næstu lið fyrir neðan sig. KR situr hins vegar í 6. sæti eftir fremur brös­ótt gengi um þarf að fara næla sér í fleiri sigra.


KR-Breiðablik undir stjórn Óskars Hrafns:

Deild:

  1. júlí 2020

KR 3 - 1 Breiðablik

21. september 2020

Breiðablik 0 - 2 KR

  1. maí 2021

Breiðablik 0 - 2 KR

  1. júlí 2021

KR 1 - 1 Breiðablik

25. apríl 2022

KR 0 - 1 Breiðablik

Bikar:

  1. september 2020

Breiðablik 2 - 4 KR