Breiðablik vann sjötta leikinn í röð í gær þegar Blikar unnu 3-0 sigur á ríkjandi Íslandsmeisturum Víkings. Með því varð Breiðablik fjórða liðið síðasta fjóra áratugi til að vinna fyrstu sex leiki tímabilsins og þrjú þeirra lyftu meistaratitlinum um haustið.

Þá hafa níu lið unnið fyrstu sex leiki tímabilsins frá því að tvöföld umferð var tekin upp árið 1959 og sjö þeirra hafa orðið Íslandsmeistarar um haustið.

Breiðablik er fyrsta liðið í sautján ár til þess að vinna fyrstu sex leikina frá því að FH vann fyrstu sex árið 2005. FH átti eftir að vinna níu leiki í röð til viðbótar og landa Íslandsmeistaratitlinum örugglega.

ÍA vann tólf leiki í röð í upphafi móts árið 1995 á vegferð sinni að Íslandsmeistaratitlinum.

Keflavík árið 1997 mistókst að fylgja eftir sex sigrum í upphafi móts og unnu aðeins einn leik til viðbótar það sem eftir lifði móts. Það dugaði Keflavík í sjötta sætið.