Í úrslitaleik fótbolta.net mótsins í gær missti Guðjón Pétur Lýðsson stjórn á skapi sínu eftir að samherji hans hafi verið tæklaður. Guðjón fékk réttilega rautt spjald og var rekinn í bað. Mínútu síðar fékk Brynjólfur Willumsson sömuleiðis rautt spjald fyrir að hrinda leikmanni ÍA. Allt þetta sást í beinni útsendingu á blikarTV, Youtube rás Breiðabliks.

Nú hefur rásin klippt saman sína punkta úr leiknum og þar eru engin rauð spjöld. Aðeins mörk og klúðruð færi heimamanna sem voru fjölmörg. Fegrað þannig stórtapið.

Þó enn séu nokkrir mánuðir í að Íslandsmótið hefjist er pressan mikil á Breiðablik. Þar stýrir þjálfari ársins Óskar Hrafn Þorvaldsson skútunni og hefur hann verið að safna liði til að reyna við þann stóra sem áratugur er síðan Blikar fögnuðu sínum eina Íslandsmeistaratitli. Þeir Oliver Sigurjónsson og Höskuldur Gunnlaugsson eru komnir aftur heim í Kópavoginn og ljóst að miklu er til tjaldað í Kópavogi.

Óskar sagði eftir leik í viðtali við fótbolta.net að vissulega hefði hann vonast eftir að leikmenn sínir hefðu haldið haus og meiri ró í mótlæti gærdagsins. Þetta færi þó í reynslubankann og hann vonaðist eftir að þeir Guðjón Pétur og Brynjólfur lærðu af þessu. „Það segir sig sjálft að það er ekki vænlegt til árangurs að vera tveimur leikmönnum færri," sagði Óskar við fótbolta.net