Breiðablik kom sér í fína stöðu til þess að komast áfram í 16 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna með því að fara með 3-2 sigur af hólmi þegar liðið fékk tékkneska liðið Spörtu Prag í heimsókn á Kópavogsvöllinn í kvöld.

Sparta Prag hóf reyndar leikinn af meiri krafti en Christina Burkenroad kom tékkneska liðinu yfir strax á þriðju mínútu leiksins.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir jafnaði hins vegar metin þegar hún skoraði með góðum skalla eftir flotta fyrirgjöf Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttir eftir stundarfjórðungs leik.

Gestirnir frá Prag komust svo yfir á nýjan leik eftir rúmlega hálftíma leik og aftur var það Christina Burkenroad sem var þar að verki.

Berglind Björg vildi ekki vera eftirbátur Burkenroad og jafnaði í 2-2 með öðru skallamarki sínu á 78. mínútu leiksins en að þessu sinni var það Ásta Eir Árnadóttir sem fann kollinn á Berglindi með hnitmiðaðri fyrirgjöf sinni.

Það var svo Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem tryggði Breiðabliki sigurinn með föstu og góðu skoti skömmu síðar. Breiðablik fer þar af leiðandi með 3-2 sigur í farteskinu þegar liðið heldur til Prag og leikur seinni leikinn eftir slétta viku.