Framherjinn Juan Camilo Pérez hefur gert tveggja ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks. Juan Camilo, sem er 22 ára gamall, er örvfættur leikmaður sem getur leikið margar stöður á vellinum.

Juan Camilo kemur frá Carabobo FC í Venesúela en hann hefur einnig leikið með Atlético Venezuela og Deportivo La Guaira.

Blikar hafa fylgst með þessum leikmanni í töluverðan tíma og mun hann koma til landsins strax eftir áramótin.

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Blika er spenntur að fá Pérez í hópinn.

,,Við erum mjög ánægðir með að hafa fengið Juan Camilo í okkar raðir. Við höfum fylgst með honum töluverðan tíma og teljum að hann muni styrkja Breiðabliksliðið mikið bæði sóknar- og varnarlega.

Hann hefur alla þá eiginleika sem við leitum að í leikmönnum, er ungur, orkumikill, fljótur og ákveðinn og við hlökkum til að fá hann til okkar í byrjun janúar" segir Óskar Hrafn.