Ökumenn í Formúlu 1 munu þurfa að fá skriflegt leyfi frá Alþjóða akstursíþróttasambandinu (FIA) hyggist þeir gefa út pólitíska yfirlýsingu með einum eða öðrum hætti. Frá þessu hefur FIA greint.
Formúla 1 er mótaröð undir regluverki FIA og munu sömu reglur gilda um aðrar mótaraðir sambandsins.
Gefi ökumenn út pólitískar yfirlýsingar án þess að hafa fengið tilskilið leyfi fyrir því gætu þeir átt yfir höfði sér refsingu.
Sjöfaldi heimsmeistari Mercedes, Sir Lewis Hamilton, sem og fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel, sem yfirgaf mótaröð sína eftir síðasta tímabil eru á meðal þeirra sem hafa reglulega verið með pólitískar yfirlýsingar samhliða störfum sínum sem Formúlu 1 ökumenn.
Hamilton, sem hefur verið ötull baráttumaður fyrir mannréttindum og fjölbreytileika, klæddist meðal annars svörtum stuttermabol fyrir Toskanakappaksturinn 2020 með orðunum „Handtakið lögreglumennina sem drápu Breonnu Taylor“ framan á.
Þá hefur Hamilton einnig kallað eftir breytingum í Sádi-Arabíu og í tengslum við keppnishelgi Formúlu 1 þar á þessu ári greindi hann frá því að hann væri hneykslaður á því að heyra um fjöldaaftökur í ríkinu. Þá hefur hann keppt í Miðausturlöndum með regnbogalitaðan hjálm til stuðnings bættum réttindum hinsegin fólks.
Sebastian Vettel hefur einnig notaði vettvang sinn sem ökumaður í Formúlu 1 til þess að varpa ljósi á réttindabaráttu hinsegin fólks sem og til að vekja athygli á þeim áskorunum sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga.
Með nýjum reglum FIA er verið að herða ólina á ökumönnum Formúlu 1 sem og annarra mótaraða. Spurningin nú er hvort ökumenn láti þetta ganga yfir sig eða berjist á móti.